Króna er sérsmíðuð hetta úr málmi, postulíni eða keramíki sem límist yfir eigin tönn. Króna endurskapar lögun og virkni tannar sem er með of stóran skaða til að fullnægjandi árangur náist með tannfyllingu. Slitnar, skemmdar eða brotnar tennur þarf að byggja upp í rétt form svo þær passi í tannröðina og í bitið. Þegar skaðinn er umfangsmikill er króna oft besta leiðin til að byggja tönnina upp aftur. Króna úr postulíni eða keramíki lítur út eins og náttúrleg tönn og uppfyllir alla eðlilega starfssemi hennar.
Það getur verið ástæða til að setja krónu á tönn ef:
-Hún er með stórar fyllingar sem veikja tannvefinn
-Það eru sprungur í tönninni og hún er í hættu að klofna eða brotna. Tannkrónan heldur tönninni saman og tekur álagið af brotthættum veggjum tannarinnar.
-Tönnin er rótfyllt og brothætt þess vegna
-Tönnin er niðurbrotin vegna skemmdar, tanngnísturs eða sýrueyðingar
-Ef bæta þarf útlit tannarinnar eða breyta lögun hennar
Það eru nokkur efni sem eru algengust þegar gerð er króna á tönn. Postulín og keramík eru hefðbundin efni, einnig málmur þar sem postulín hefur verið brennt á til að gera hana betri útlitslega. Zirkonia er tannlitað efni sem er orðið mjög algengt í krónugerð. Zirkonia er steind sem hefur styrk á við málm. Krónur úr zirkonia eru mjög sterkar og því algengt að nota það efni í jaxlakrónur. Allar krónur sem eru smíðaðar á tennur eru tannlitar fyrir utan einstaka gullkrónur.
Það þarf að hirða um tönn með krónu alveg eins og aðrar tennur í munni. Þar sem eigin tönn er undir krónunni þarf að halda henni hreinni svo leki komi ekki að samskeytum og skemmd myndist. Burstaðu tennurnar tvisvar á dag og notaðu tannþráð eða millibursta daglega.
Það er mjög misjafnt hversu lengi króna endist. Það fer eftir staðsetningu í munni, úr hvaða efni hún er og hversu vel þú hugsar um tennurnar þínar. Yfirleitt er talað um 15-20 ár en króna getur enst mun lengur ef aðstæður eru góðar.
Ef tönnin er lifandi þarf að deyfa áður en meðferð hefst. Tönnin er svo þynnt á alla kanta, ofan á og allan hringinn svo pláss myndist fyrir hettu yfir tönnina. Stundum þarf að laga formið á tönninni með tannfyllingarefnum. Þegar tannlæknirinn er búinn að taka nóg af tannvefnum eru tennurnar og bitið skannað í þrívíddarskanna. Skannið er sent á tannsmíðastofu sem smíðar krónuna á tönnina. Króna er sérsmíðuð fyrir hverja tönn svo falli rétt að tönninni, aðliggjandi tönnum og passi í biti. Hún þarf líka að falla vel inn í tannröðina hvað útlit varðar og vera í réttum lit. Á meðan krónan er smíðuð ert þú með bráðabirgðakrónu úr plasti á tönninni. Þegar krónan er tilbúin er hún mátuð og síðan límd á tönnina ef hún passar og útlit er ásættanlegt. Það er sjaldgæft að krónur losni eftir að þær eru límdar og tönn með krónu virkar eins vel og aðrar tennur í munni.
Krónur eru ekki bara settar á eigin tennur. Ef stök tönn tapast og tannplanti er settur í staðinn, er króna smíðuð og síðan fest á tannplantann. Krónan er þá úr tannlitu efni, postulíni, keramíki eða zirkonia. Stundum er gerð málmkróna með ábrenndu postulíni.
Það er misjafnt hvað króna kostar. Það fer eftir þáttum eins og efnisvali, tannsmíðakostnaði og hversu mikla undirvinnu þarf við tönnina áður en hægt er að gera krónuna sjálfa. Þú getur séð dæmi um kostnað við að gera krónu í verðlistanum okkar. Deyfing og bráðabirgðakróna er innifalið í verði krónu.
Sjúkratryggingar veita styrk sem nemur 75% af verði einnar krónu hjá öldruðum og öryrkjum, einu sinni á hverju 12 mánaða tímabili.
Það getur borgað sig að bíða ekki of lengi ef tannlæknirinn þinn hefur mælt með krónu á tönn. Við notum nýjustu þrívíddartækni til að skanna fyrir krónu og engrar máttöku er þörf. Við hlökkum til að aðstoða þig!