Plastviðbætur

Með plastviðbót er átt við þegar tannlitað fyllingarefni, plastefni, er notað til að breyta lögun tannar eða þekja yfir hluta tannar. Plastviðbætur eru notaðar til að laga tannbrot, mislitun á tönnum,  breyta lögun tannar sem er útlitslega ófullnægjandi og til að laga bil á milli tanna, til dæmis frekjuskarð.   Þegar talað er um plastskel er átt við að öll framhlið tannarinnar er þakin með plastfyllingarefni.  Það er oftast gert til að laga mislitun á tönnum eða ójöfnur eða til að þykkja og/eða stækka tönnina.

illustration of teeth together.

Hvaða efni er notað í plastviðbætur?

Það fyllingaefni sem er mest notað í dag er kallað composit eða plastfylling.  Það er plastblanda með örsmáum postulínskornum sem auka styrk efnisins.  Efnið fellur vel að náttúrulegum lit tannanna og er hægt að pússa þannig að áferðin verði lík þeirri sem tennurnar hafa.   Plastið binst vel við tannvefinn sem er mikill kostur  og gerir það að verkum að oftast þarf ekkert eða mjög lítið að bora til að gera plastviðbætur.

Ókostur fyllingaefnisins er að efnið slitnar og mislitast með tímanum, mjög mismikið eftir einstaklingum.  Einnig getur styrkur þess verið ófullnægjandi ef plastviðbótin er stór og ekki studd af tannvef undir.  Álag er einnig mjög mismunandi og hjá sumum duga fyllingar mjög lengi en styttra hjá öðrum.

Í sumum tilfellum getur þurft að nota postulín í stað plastfyllingaefnis.  Það á aðallega við þegar meðferð er umfangsmeiri,  svo sem þegar um skeljar er að ræða.   Þá er skelin smíðuð á tannsmíðaverkstæði og límd á tönnina.

Hvernig ferð meðferðin fram?

Í flestum tilvikum þarf ekki að deyfa þegar gerðar eru plastviðbætur.  Yfirborð tannarinnar er pússað, það síðan sýruþvegið til að auka bindingu.  Því næst er bindiefni borið á yfirborðið og hert með ljósi.  Þar næst er plastviðbótin mótuð og hert með ljósinu.  Plastefni er síðan pússað.  

Meðferðin er mjög mis umfangsmikil, allt frá því að laga lítið glerungsbrot upp í að fylla í mörg bil milli tanna.  Stundum þarf að setja plastefnið í mörgum þunnum lögum á tönnina.  Pússun getur verið tímafrek og vandasöm til að fá rétta lögun og áferð á tönnina sem verið er að laga.

Bitið er athugað vandlega og pússað til.   Það er mikilvægt að bitið sé rétt.  Þú átt ekki að finna fyrir plastviðbótinni þegar þú bítur saman.

Við hverju má ég búast?

Þú átt ekki að hafa nein óþægindi í tönninni eftir að plastviðbót hefur verið sett.  Ef þú ert með nýlegan áverka á tönn sem verið er að laga er hugsanlegt að einkenni stafi frá áverkanum og þarf að skoða ef svo er.  Ef þér finnst viðbótin vera fyrir í biti eða bithreyfingum eftir að heim er komið er mikilvægt að hafa samband við okkur.

Hafðu í huga að plastviðbót er viðgerð sem getur brotnað eða losnað.  Ef viðgerðin er á bitkanti getur nagávani eða aðrir ávanar og gnístur brotið eða valdið sliti á viðgerðinni.  

Hvað kostar plastviðbót?

Plastviðbætur eru eins og aðrar viðgerðir með plastefnum, verðlagar eftir því hversu margir fletir eru viðgerðir.  Þú getur séð dæmi um verð í verðlistanum okkar.

Meðferðin er mjög mis umfangsmikil og misjafnt hversu mikið er gert í einu.  Tannlæknirinn þinn getur áætlað kostnað við þína meðferð fyrirfram.

Ert þú með brot í tönn eða önnur útlitsatriði sem þig langar að laga?

Við hjá Tannlæknaþjónustunni höfum áhuga á tannheilsu þinni og viljum aðstoða þig við að halda tönnunum í góðu lagi.  Þú ert velkomin(n) í skoðun til okkar og við metum í sameiningu hverjar þarfir þínar og langanir eru varðandi tennurnar þínar.