Reglulegt eftirlit hjá tannlækni er mikilvægt til að tryggja heilbrigði tanna og tannholds. Við skoðum munninn vandlega, hreinsum tennur, og tökum stundum röntgenmyndir til að finna snemma merki um vandamál. Með reglulegu eftirliti getum við komið í veg fyrir tannskemmdir og fylgst með heilsu munnholsins, auk þess sem við gefum þér persónuleg ráð til að halda tönnunum heilbrigðum.
Þegar þú kemur í eftirlit til okkar byrjum við á að heyra hvort þú hafir fundið fyrir einhverjum óþægindum eða breytingum í munninnum eða á tönnunum síðan í síðustu skoðun. Það er líka mikilvægt fyrir tannlækninn að vita ef breytingar hafa orðið á almennri heilsu, ert að taka ný lyf eða ef þú ert í læknismeðferð við sjúkdómi. Við skoðum tennur, tannhold, munnslímhúð og munnhol vandlega. Oft eru teknar 2 eða fleiri röntgenmyndir til að sjá þau svæði sem ekki er hægt að sjá með berum augum. Tennur eru hreinsaðar og pússaðar og stundum er flúorlakk borið á þær, oftast hjá börnum en stundum fullorðnum ef skemmdatíðni er há. Við gefum einnig góð ráð við tannhirðu sem henta þér svo þú getir sem best haldið tönnum og tannholdi heilbrigðu milli eftirlitstímanna. Ef eitthvað kemur í ljós sem þarf að laga eða fylgjast með færðu greinargóðar upplýsingar um það. Þú getur fengið kostnaðaráætlun ef þú þarf að koma í viðgerðir eða aðra tannlæknameðferð.
Fyrir flesta er hæfilegt að koma í eftirlit einu sinni á ári. Sumir þurfa að koma oftar, til dæmis ef mikill tannsteinn myndast eða ef fylgjast þarf með byrjandi tannskemmdum. Börn á tannskiptaaldri þurfa að koma oftar til að fylgjast með tannkomunni og stundum þarf að skorufylla fullorðinsjaxla sem fyrst eftir að þeir koma í munn.
Þeir sem eru mjög heilbrigðir í munni og mynda lítinn tannsteinn geta komið sjaldnar, sumir á tveggja ára fresti.
Tannlæknirinn þinn metur, í samráði við þig, hvað hæfilegt sé í þínu tilviki. Við bókum alltaf næsta eftirlitstíma þegar þú kemur í eftirlit og tryggjum þannig góða þjónustu. Við minnum þig á tímann viku áður og þú getur breytt tímanum ef hann hentar ekki.
Það er misjafnt hvað tíminn kostar eftir því hvað er gert. Skoðun, röntgenmyndataka og tannhreinsun eru algengustu gjaldliðirnir. Gjald fyrir myndatöku fer eftir fjölda mynda og tannhreinsun getur kostað mismikið eftir því hversu umfangsmikil hún er. Þú getur séð dæmi um verð í verðlistanum okkar. Sjúkratryggingar greiða fyrir börn 0-18 að undanskildu 3500 kr komugjaldi á hverju 12 mánaða tímabili. Sjúkratryggingar taka einnig þátt í kostnaði hjá öldruðum og öryrkjum.
Fyrsta skoðun hjá tannlækni getur verið umfangsmeiri en reglulegt eftirlit. Þegar þú hefur komið í skoðun og lokið þeirri meðferð sem ákveðin hefur verið getur þú, eftir það, komið í reglulegt eftirlit eins oft og tannlæknir mælir með og þið eruð sammála um.
Við bjóðum nýja viðskiptavini velkomna í skoðun til okkar og leggjum áherslu á reglulegt eftirlit í framhaldinu.
Við hlökkum til að taka á móti þér!