Tannhvíttun

Tannhvíttun er örugg og áhrifarík aðferð til að lýsa tennur og bæta útlit brosins. Hvort sem þú velur hraðhvíttun á stofu eða heimahvíttun með skinnum, hjálpum við þér að ná sem bestum árangri með faglegri aðstoð og vönduðum efnum.

Illustration of a man who has had his teeth whitened.

Hvað er tannhvíttun?

Með tannhvíttun er átt við aðferð þar sem tannhvíttunargel er notað til lýsa lit tanna. Gelið smýgur inn í tönnina og með efnafræðilegu ferli leysir það upp litakorn sem þar sitja.

Hvers vegna tannhvíttun?

Margir upplifa tennur sínar of dökkar eða gular og einnig dökkna tennurnar með aldrinum. Litur tanna getur farið eftir litarrafti og eru því sumir með dökkar eða gular tennur frá náttúrunnar hendi. Með tímanum safnast litur inn í tennurnar og tennurnar dökkna auk þess sem lífstíll okkar bætir utanaðkomandi lit á tennurnar.

Tannhvíttun er árangursrík meðferð til  að bæta útlit tanna. Aðferðin er tiltölulega einföld og áhættulítil sé hún framkvæmd af fagaðilum

Yfirborðslitur

Yfirborðslitur getur stafað reykingum, drykkjum, svo sem kaffi, tei og rauðvíni, vanþrifum og tannstein. Einnig getur litur fallið á gamlar fyllingar. Yfirborðslitur er fjarlægður með tannhreinsun og einnig er hægt að pússa eða skipta út gömlum fyllingum.

Tannbein

Litur tannbeinsins sem er undir glerungnum skín í gegnum glerunginn. Dökkt tannbein gefur tönnunum dekkra yfirbragð.   Auðveldara er að lýsa gulleitt tannbein en grátt. Stundum hefur glerungurinn slitnað  svo það skín í dökkt og mislitað tannbeinið. Gott dæmi um þetta getur verið bitkantur neðri góms framtanna. Stundum er nauðsynlegt að loka yfir bert tannbein með fyllingarefnum áður en tannhvíttun hefst. Það eykur árangur meðferðarinnar og minnkar líkur á kuli eftir meðferð.

Hverjir geta farið í tannhvíttun?

Það er nauðsynlegt að fara í tannskoðun áður en ákvörðun um meðferð er tekin. Stundum þarf að hreinsa tennurnar fyrst og loka opnum tannskemmdum og viðkvæmum svæðum með fyllingum.

Allir sem náð hafa 18 ára aldri og eru með heilbrigðar og hreinar tennur geta farið í tannhvíttun sé til þess ástæða. Þó ber að gæta varúðar hjá fólki með mjög viðkvæmar tennur, mikla glerungseyðingu eða tannholdssjúkdóma. Oft þarf einhverja tannlæknameðferð áður en tannhvíttun getur farið fram.

Tannhvíttun er ekki ráðlögð fyrir barnshafandi konur eða konur með börn á brjósti.

Fylgja einhverjar aukaverkanir tannhvíttunarmeðferðinni?

Algengasta aukaverkun tannhvíttunar er tímabundin viðkvæmni og kul í tönnum eða sviði í tannholdi. Ef það kemur upp er best að hvíla sig á meðferðinni og halda áfram þegar viðkvæmni minnkar. Þá er oft gott að fara rólega af stað aftur, til dæmis að nota meðferðina annan hvorn dag og í styttri tíma í einu.

Hvernig fer tannhvíttun fram?

Efnið sem við notum til að hvítta tennur er yfirleitt karbamíðperoxíð eða vetnisperoxíð. Einnig eru í blöndunni efni sem minnka líkur á tannkuli og auka þægindi við notkun. Hvíttunarefnið gengur inn í tennurnar og losar súrefni en við það brotnar litarefni upp og tennurnar lýsast.

Hjá Tannlæknaþjónustunni bjóðum við upp á tvær aðferðir við að hvítta tennur:

Hvíttun í stól, svo kölluð hraðhvíttun

Hvíttun með skinnum, heimahvíttun

Hvíttun í stól:

Hvíttunin fer fram á stofunni af sérhæfðu aðstoðarfólki tannlæknis eftir að tannlæknir hefur mælt með meðferðinni fyrir viðkomandi einstakling. Gúmmíefni er borið á tannhold til að verja það og síðan er sterkt tannhvíttunarefni borið á tennurnar í nokkrum umgöngum. Meðferðin tekur um 2 klukkustundir

Hvíttun með skinnum:

Tennur eru skannaðar með stafrænum skanna og módel af tönnum eru þrívíddarprentuð. Búnir eru til glærir gómar, svo kallaðar skinnur, sem falla þétt að tönnunum. Tannhvíttunarefnið er sett í skinnurnar og þær síðan settar yfir tennurnar. Meðferðin tekur yfirleitt um 1-2 klst á dag í 7-14 daga. Í erfiðari tilfellum er stundum þörf á að lengja meðferðina.

Ef tannhvíttun í stól er valin mælum við oft með því að viðkomandi fái sér einnig skinnur til heimahvíttunar. Oft er þörf á að bæta við meðferðina og viðhalda henni.

Geta allir búist við góðum árangri?

Rannsóknir sýna að flestir sem fara í tannhvíttun er ánægðir með meðferðina. Best tekst til í þeim tilfellum þar sem tennur hafa dökknað með aldrinum og hjá einstaklingum með gulleitar tennur. Gráleitar tennur geta verið erfiðari viðfangs en alltaf næst einhver árangur.Tannhvíttun virkar ekki á fyllingar, postulín, svar-bláar tennur sem litast hafa af silfurfyllingum eða fasta liti í sprungum.    Ekki er heldur hægt að lýsa upp rótfylltar tennur utan frá, koma þarf lýsingarefninu inn í tennurnar og er þá meðferðin annars konar og miðar að einstakri tönn.  Leitaðu álits hjá tannlækni þínum um hvort tannhvíttun henti þér.

Við mælum eindregið gegn því að leita annað en á tannlæknastofur til að fá tannhvíttunarmeðferð.

Góð þekking á  efnunum og mismunandi styrk þeirra er nauðsynleg til að meðferðin takist sem best. Einnig þarf að skoða tennur og tannhold vandlega áður en tekin er ákvörðun um meðferð.

Er tannhvíttun varanleg meðferð?

Að vissu marki má segja að tannhvíttun sé varanleg meðferð þar sem tennurnar verða sjaldnast jafn dökkar aftur hafi góðum árangri verið náð. Hins vegar er alltaf eitthvað afturhvarf í meðferðinni. Algengt er að endurtaka meðferðina, í nokkra daga í senn, einu sinni á ári eða á nokkurra ára fresti.  Skinnurnar endast afar vel og hægt er að kaupa tannhvíttunarefni á stofunni. Einnig er hægt að koma í styttri hraðhvíttunartíma til að fríska upp á fyrri tannhvíttun.

Hvort er betra að fara í hraðhvíttun eða hvítta heima?

Fyrir flesta er heimahvíttun ein og sér fullnægjandi meðferð sem felur í sér lágmarks áhættu. Hraðhvíttun getur hins vegar verið mjög árangursrík en hætta á aukaverkunum svo sem kuli í tönnum er meiri. Þess vegna mælum við ekki með henni fyrir unga einstaklinga.

Við bjóðum einnig upp á hraðhvíttun og heimahvíttun í einum hagstæðum pakka til að ná hröðum og góðum árangri.

Stundum hefur tannhvíttun með ljósum verið áberandi í umræðunni og jafnvel hafa sést auglýsingar um svo kallaða „leiserhvíttun.“ Þar er um að ræða blátt ljós (ekki leiser) sem í besta falli hraðar ferlinu. Alltaf þarf að bera tannhvíttunarefni á tennurnar. Efnin sem við notum hjá Tannlæknaþjónustunni eru frá viðurkenndum framleiðendum og ekki háð notkun slíkra ljósa.

Langar þig að vita hvort tannhvíttun hentar þér?

Við hjá Tannlæknaþjónustunni tökum vel á móti þér í tannskoðun og getum metið hvort tannhvíttun sé meðferð sem hentar þínum tönnum. Við notum einungis tannhvíttunarefni frá viðurkenndum framleiðendum og fylgjum nákvæmum ferlum við meðferðina. Þú ert í öruggum höndum hjá okkur.