Barnatannlækningar

Við leggjum mikla áherslu á að skapa jákvæða og örugga reynslu fyrir börn hjá tannlækninum. Fyrstu heimsóknir snúast um að venja barnið við umhverfið og byggja traust, þannig að tannlækningarnar verði ánægjulegar og án kvíða. Börn þurfa reglulegt eftirlit og við fylgjumst með tannheilsu þeirra á öllum aldri með persónulegri nálgun og faglegri umönnun.

Illustration of a dentist with a child.

Í fyrsta skipti til tannlæknis

Áður en barn fer til tannlæknis í fyrsta skipti er gott að ræða heimsóknina á jákvæðum nótum við barnið og jafnvel skoða barnabækur um tannlæknaheimsóknir saman.

Eigin tannlæknareynsla foreldra er oftast ekki í samræmi við það sem barnið kemur til með að upplifa, forðist því að lýsa eigin reynslu.

Almennt er ágætt að segja að tannlæknirinn ætli að telja tennurnar og kannski bursta þær.

Lofið ekki barninu gulli og grænum skógum standi það sig vel þar sem það leiðir til tortryggni og veldur vandræðum ef barnið stendur ekki undir væntingum.

Öll börn fá verðlaun hjá tannlækninum sem ávallt tekst að finna einhvern jákvæðan flöt á hegðun barnins sem hægt er að verðlauna.

Athugið að gefa barninu að borða áður en það fer til tannlæknis vegna þess að tennur eru stundum flúorpenslaðar í skoðunartímanum.  Þá má ekki borða fasta fæðu í 1 klst á eftir og ekki bursta um kvöldið né nota tannþráð.  

Það er ekki heppilegt að skipuleggja ferð í bakaríið eða á veitingastað eftir tannlæknaheimsókn.

Mætið tímanlega

Það er mjög mikilvægt að mæta tímanlega í pantaðan tíma og leyfa barninu að átta sig á umhverfinu í rólegheitum.  Fara úr utanyfirfötum og skóm, skoða dótið í barnahorninu og leika sér og nota salerni ef þörf er á því.  Foreldrar þurfa einnig að fylla út heilsuskráningu fyrir barnið. Þegar tannlæknirinn eða aðstoðarfólk kemur að sækja barnið á biðstofuna er fyrsta stigi aðlögunar lokið ef rétt er farið að.

Á staðnum

Leyfið tannlækninum að nálgast barnið án þess að grípa fram í samskiptin að óþörfu. Foreldrar fylgja ungum börnum inn á tannlæknastofuna og þeim stærri eftir óskum og þörfum. Mikilvægt er að foreldrar haldi sig til hlés meðan tannlæknir nálgast barnið og reynir að ná athygli þess. Stundum geta foreldrar verið hjálplegir ef um einhverja hegðunarerfiðleika er að ræða. Varast skal að trufla aðlögun og meðferð barnsins með óþarfa masi við tannlækninn, það hindrar hann frá því  að ná athygli barnsins.

Hegðunarfrávik

Látið vita ef um einhver hegðunarfrávik eða þroskafrávik er að ræða hjá barninu, helst um leið og tíminn er pantaður.  Það getur verið að tannlæknirinn þurfi að nota aðrar aðferðir til að nálgast barnið sé um slíkt að ræða.  Foreldrar geta verið afar hjálplegir og leiðbeint tannlækni og starfsfólki um hvernig best sé að nálgast barnið ef um frávik er að ræða.

Þegar vel gengur

Við venjulega skoðun sest barnið í stólinn,  stólnum er hallað aftur, tennur eru skoðaðar með spegli og sondu (Kalla krók) og stundum eru teknar röntgenmyndir.  Oft eru tennur pússaðar og flúorpenslaðar en ekki alltaf í fyrstu heimsókn.   Athugið að eftir flúorpenslun má barnið ekki borða fasta fæðu í 1klst og ekki bursta tennur um kvöldið.

Gangi heimsóknin að óskum fær barnið að sjálfsögðu hrós og verðlaun og foreldrar  og barn  ganga  stolt út.

Ef ekki gengur allt að óskum

Gangi  ekki  allt að óskum  og barnið er ósamvinnuþýtt er afar mikilvægt að fara ekki í neikvæðan gír og ásaka barnið. Öll börn vilja innst inni standa sig vel  þótt þau séu ekki alltaf fær um það þegar á hólminn er komið. Oftast er bókaður nýr tími og barnið fær annað tækifæri.   Í millitíðinni er hægt að undirbúa barnið fyrir næstu heimsókn.   Talið ekki um fyrri frammistöðu barnsins á neikvæðan hátt svo barnið heyri.    Talið jákvætt um  tannlækninn og starfsfólk og umhverfi  tannlæknastofunnar.    Svo getur farið  að það gangi heldur ekki allt að óskum næst þegar barnið kemur.  Sum börn koma til okkar full af góðum ásetningi en hlaupa svo í baklás um leið og tannlæknirinn birtist.  Örvæntið ekki því þetta eldist af langflestum börnum.  Eftir 4-5 ára aldur eru all flest börn fær um að heimsækja tannlækninn og láta framkvæma venjulegar meðferðir.   Aðeins lítill hluti barna þarf á sérstökum úrræðum að halda eins og td. róandi lyfjum  eða svæfingu.

Börn þurfa að koma reglulega til tannlæknis.

Við mælum með að börn komi á 6-12 mánaða fresti í reglulegt eftirlit til tannlæknis. Tannlæknir metur í hvert skipti hvaða áhættuþættir eru til staðar hjá barninu og hversu langt á að vera í næsta eftirlit. Áhættuþættir geta verið byrjandi eða ákomnar skemmdir, léleg tannhirða, slæmt mataræði, veikindi osfrv. Börn sem eru að fá fullorðinstennur þurfa líka oft að koma aðeins þéttar á meðan á því ferli stendur.

Þegar barn kemur í reglulegt eftirlit eru tennurnar skoðaðar, pússaðar og oft flúorbornar. Röntgenmyndir eru teknar reglulega til að meta hvort það séu skemmdir, sérstaklega á milli jaxla,og stundum til að staðfesta að fullorðinstennur séu til staðar undir barnatönnum.

Hvað kostar að koma með barn til tannlæknis?

Tannlækningar barna 0-18 ára eru að fullu greiddar af Sjúkratryggingum að undanskildu 3500 króna komugjaldi sem innheimt er á hverju 12 mánaða tímabili. Þú greiðir því ekkert fyrir barnið þitt hjá okkur nema komugjaldið þegar það á við.

Átt þú barn sem þarf að koma til tannlæknis?

Hjá Tannlæknaþjónustunni sinnum við tannlækningum fyrir alla aldurshópa. Tannlæknar okkar hafa langa reynslu af tannlækningum barna og taka vel á móti þeim. Við hlökkkum til að hitta þitt barn!