Brú

Tennur geta tapast af ýmsum orsökum svo sem slysum, tannholdssjúkdóm, sýkingum og fleira. Ef tönnin er mikilvæg, útlitslega eða til að halda uppi tyggingu, þarf að leita leiða til að bæta upp tanntapið. Val á meðferð fer eftir umhverfinu sem tönnin var í, svo sem hvort tennur séu sitt hvoru megin við bilið og í hvaða ástandi þær eru.

Illustration of a Dental bridge

Hvað er brú?

Brú er þegar smíðaðar eru krónur yfir tennur sitt hvoru megin við tannlaust bil og á milli þeirra er fest tannkróna sem fyllir upp í tannlausa bilið. Þessar þrjár einingar eru þá fastar saman í einu stykki. Tennurnar sem krónurnar koma á eru kallaðar stoðtennur og tönnin í skarðinu er kölluð milliliður. Brúin er límd á stoðtennurnar og situr föst þar. Það er ekki hægt að taka brúnna út úr munninum.

Brú getur líka náð yfir fleiri tannbil og fest á margar stoðtennur og eins geta milliliðir verið fleiri.

Þegar tennur eru sitt hvoru megin við tannlaust bil þarf að meta ástand þeirra og hvort þær séu góðar stoðtennur fyrir brú. Ef tennurnar eru heilar og ekki þörf fyrir krónusmíði á þær þarf að meta hvort ekki sé betra að setja tannplanta í tannlausa bilið frekar en að smíða brú.

Hvaða kosti hefur brú?

-  Meðferðin tekur oftast stuttan tíma, til dæmis ef borið saman við að fá tannplanta

-  Lítur náttúrlega og eðlilega út

-  Er oft góður stuðningur ef los er á tönnum

-  Er föst í munni

Hverjir eru ókostirnir við að fá brú?

-Það þarf að sverfa til tennur sitt hvoru megin við tannlaust bil til að smíða brú. Það getur verið ókostur ef tennurnar eru tiltölulega heilar.

-Tennurnar í brúnni eru fastar saman og getur verið erfitt að halda hreinu. Það er ekki hægt að fara með tannþráð milli tannanna í brúnni.

Hvaða efni er í brú?

Það eru nokkur efni sem eru algengust þegar smíðuð er brú. Efnisval fer eftir stærð og lengd brúarinnar og hversu mikinn styrk þarf í efninu. Zirkonia er steind sem hefur styrk á við málm og er oft notað í brýr. Í sumum tilfellum hentar betur að gera brú úr málmi sem postulín er brennt á til að gera það tannlitað. Tannlæknirinn metur hvaða efni hentar best hverju sinni út frá styrk og útliti. Allar brýr sem eru smíðaðar á tennur eru tannlitar og hafa náttúrlegt útlit.

Hvernig á að hirða um brúnna?

Það þarf að bursta brúnna eins og aðrar tennur. Þar sem stoðtennurnar eru undir getur komið leki og skemmd ef óhreinindi fá að liggja við samskeytin. Það er ekki hægt að fara með tannþráð á milli tannanna þar sem þær eru fastar saman. Það er ráðlagt að nota litla bursta, millibursta, til að fara undir brúnna við stoðtennurnar. Einnig er til sérstakur tannþráður með stífum enda sem hægt er að þræða undir. Tannlæknirinn þinn gefur þér ráðleggingar um hvernig best er að hirða um þína brú.

Hvað kostar brú?

Brú er samsett úr tveimur eða fleiri krónum og einum eða fleiri milliðum. Dæmi um verð á hverjum lið getur þú séð í verðlistanum okkar. Tannlæknirinn þinn getur gefið þér kostnaðaráætlun áður en meðferðin hefst og oft er gert verðtilboð í stærri verk. Sjúkratrygginar greiða 75% af verði einnar krónu á hverju 12 mánaða tímabili hjá öldruðum og öryrkjum.

Ert þú með tannlaust bil? Gæti brú verið lausnin fyrir þig?

Við hjá Tannlæknaþjónustunni erum sérfræðingar í að ráðleggja þér hvað meðferð hæfir best í þínu tilviki. Við skoðum hvert tilvik fyrir sig, komum með tillögur að meðferð og gerum kostnaðaráætlun. Þú ert velkomin(n) til okkar í skoðun og í sameiningu komumst við að því hvaða meðferð hentar í þínu tilviki.