Endajaxlar eru öftustu fullorðinstennur í munni. Þeir eru fjórir, einn í hverjum fjórðungi. Uppkoma endajaxla í munni er yfirleitt milli 17 og 25 ára aldurs. Algengt er að endajaxlar komist ekki upp í munn eða að uppkoma þeirra valdi vandkvæðum eins og sýkingum og verkjum.
Margir fá endajaxla í munn án vandkvæða og geta nýtt þá eins og aðrar jaxla í munni. Ef þeir snúa rétt og hafa nægjanlegt pláss er engin ástæða til að fjarlægja þá. Það er þó mjög algengt hjá nútímamanninum að plássið aftast í munni sé of lítið til að jaxlarnir komist upp. Plássleysi leiðir líka til þess að jaxlarnir halla eða eru snúnir í beininu og komast af þeim sökum ekki upp í munn. Flestir mynda alla fjóra endajaxlana en þó er töluvert algengt að einn eða fleiri myndist ekki.
Algengustu vandamálin eru:
Inniluktir endajaxlar. Endajaxl kemur ekki upp og er alveg lokaður undir tannholdi og hulin beini. Þessum endajöxlum þarf að fylgjast með og taka röntgenmyndir reglulega til að útiloka sjúkdóm í kringum þá. Oft mega þessir jaxlar vera meðan þeir valda ekki vandræðum.
Hálfuppkomnir endajaxlar. Ef endajaxl kemst upp í gengum kjálkabein og rýfur op á slímhúðina geta bakteríur úr munnholi komist undir og valdið sýkingu.
Tannskemmdir. Staðsetning endajaxla gera okkur oft erfitt fyrir með tannburstun. Það er því algengt að endajaxlar skemmist.
Tannholdsbólgur. Staðsetning jaxlanna og erfiðleikar með þrif leiðir oft til bólgu kringum jaxlinn. Viðvarandi bólga getur leitt til beintaps við endajaxlinn sem oft hefur áhrif á jaxlinn fyrir framan hann.
Okkur hjá Tannlæknaþjónustunni er umhugað um líðan þína og aðstoðum þig gjarnan ef þú ert með vandamál út frá endajaxli. Dæmigerð einkenni frá endajaxli er verkur á svæðinu, bólga, vont bragð eða lykt. Einnig getur verið sárt að opna munninn og kyngja, sérstaklega ef vandinn er í neðri góm. Þá getur einnig verið hálsbólgutilfinning þeim megin sem vandinn er og aumir eitlar undir kjálkabarðinu. Hafðu samband við okkur og við bókum þig í tíma. Oftast er tekin röntgenmynd og tannlæknir metur hvað sé best að gera. Ef um sýkingu er að ræða þarf oft að gefa sýklalyf. Ef fjarlægja þarf jaxlinn er best að gera það þegar virk sýking er ekki til staðar.
Stundum þarf að taka þrívíddarmynd til að meta legu jaxlins með tilliti til kjálkataugarinnar og lágmarka áhættu við aðgerðina.
Endajaxlataka getur verið allt frá því að vera einfaldur tannúrdráttur upp í skurðaðgerð. Þegar um aðgerð er að ræða er mikilvægt að vera vel undirbúinn og hafa góðar upplýsingar um ferlið.
-Áður en aðferð er framkvæmd fer tannlæknir vandlega yfir heilsufarssögu þína og lyfjainntöku. Ef tannlæknir mælir með sýklalyfjum fyrir aðgerð er mikilvægt að taka þau samkvæmt fyrirmælum.
-Þær endajaxlaaðgerðir sem gerðar eru hjá Tannlæknaþjónustunni eru gerðar í staðdeyfingu. Ræddu við tannlækninn þinn ef þú hefur upplifað ónot við staðdeyfingu
-Gott er að láta tannlækninn vita ef þú finnur fyrir miklum kvíða fyrir aðgerðinni.
-Í flestum tilvikum er ekki þörf á svæfingu eða slævingu fyrir slíkar aðgerðir en í þeim tilfellum er vísað á munn og kjálkaskurðlækni. Við getum gefið þér væg kvíðastillandi lyf ef þörf er á.
-Þú þarft ekki að fasta fyrir endajaxlatöku í deyfingu og mikilvægt er að vera vel út hvíldur og borða vel fyrir aðgerð. Þú mátt ekki borða strax eftir aðgerðina.
-Kynntu þér vandlega leiðbeiningar eftir aðgerð og undirbúðu þig fyrir að fylgja þeim vel eftir.
-Í endajaxlaaðgerðum er gerður lítill skurður til að komast að jaxlinum og stundum þarf jafnvel að fjarlægja bein ofan af honum. Þá getur þurft að hluta jaxlinn í minni búta til að koma honum út úr beininu.
-Í einstaka tilfellum neðri góms endajaxla er einungis tannkrónan fjarlægð og rætur skildar eftir til að forðast skaða á kjálkatauginni. Skaði á tauginni getur valdið tímabundum eða varanlegum doða í vör.
-Þegar búið er að fjarlægja endajaxlinn er svæðið snyrt og hreinsað og skurðurinn saumaður saman. Eftir það þarf oft að bíta á grisju í góða stund til að leyfa sárinu að jafna sig í rólegheitum og blóðstorka myndast í sárinu.
-Að aðgerð lokinni er mikilvægt að taka því rólega og kynna sér vel leiðbeiningar eftir aðgerð.
Bólga og mar getur myndast eftir aðgerð og nær oftast hámarki eftir tvo daga en byrjar þá að ganga niður.
Búast má við verkjum fyrstu dagana og vægir verkir geta varað allt að 10-14 daga. Verkjatöflur hjálpa til við að halda verkjum niðri.
Svolítil blæðing getur verið á svæðinu fyrsta sólarhringinn. Athugaðu að lítið magn blóðs getur litað munnvatn svo lítur út fyrir að blæðing sé meiri en hún er í raun og veru.
Til að stuðla að sem bestri græðslu og minnka líkur á eftirköstum er mikilvægt að:
Taka því rólega fyrstu tvo dagana og forðast líkamlega áreynslu
Vera á fljótandi eða mjúkri fæðu í að minnsta kosti tvo daga eftir aðgerðina, jafnvel lengur. Ekki drekka með röri vegna hættu á að soga upp blóðstorkuna í sárinu.
Taktu þau lyf sem tannlæknirinn þinn ráðleggur þér
Gott er að kæla með köldum bakstri fyrst um sinn til að lágmarka bólgu og minnka verki
Notaðu bakteríudrepandi munnskol í tvær vikur eftir aðgerð
Reyndu að viðhalda góðri tannhirðu en þó má ekki bursta beint á svæðið fyrstu dagana. Burstaðu í átt frá sárinu.
Reykingar og veip seinka græðslu og auka verulega líkurnar á eftirköstum. Slepptu reykingum og veipi fyrstu dagana eftir aðgerð.
Oftast þarf að sauma eftir endajaxlatöku og í flestum tilvikum vill tannlæknir fá þig í tíma um viku eftir aðgerðina til að skoða græðsluna og taka saumana.
Fersk blæðing er viðvarandi og /eða þú finnur að blóðlifur er að myndast á svæðinu
Þú upplifir mikla verki sem ganga ekki niður við notkun á verkjalyfjum
Þú upplifir einkenni sýkingar svo sem hita, graftarmyndun og ef þú bólgnar upp aftur
Ef verkir aukast 3-5 daga eftir aðgerð
Ef þú upplifir doða á svæðinu
Ef þú á í erfiðleikum með að kyngja eða finnst erfitt að anda
Utan opnunartíma má hafa beint samband við tannlækninn sem gerði aðgerðina í gsm síma eða með email.
Við hjá Tannlæknaþjónustunni höfum áhuga á að hjálpa þér, hvort sem þú ert með hugleiðingar varðandi þína endajaxla eða fyrirhugaða aðgerð. Hafðu samband við okkur til að fá einstaklingsmiðaðar leiðbeiningar og ráð.