Tannfyllingar.

Ert þú með holu, skemmd eða brot í tönn? Ef skaðinn er ekki of umfangsmikill er líklega hægt að laga hann með tannfyllingu. Hjá Tannlæknaþjónustunni notum við eingöngu tannlit fyllingarefni.

Illustration of a tooth filled.

Hvað er tannfylling?

Tannfylling, oftast kallað fylling, er meðferð sem er notuð til að laga skaðaða tönn þannig að hún fái sitt upprunalega form og virkni.  Tannfyllinginn stöðvar skemmdaferlið og lokar broti eða holu þannig að bakteríur komist ekki að tannvefnum.

Hvenær þarf að gera fyllingu í tönn?

-Skemmd í tönn.  Þetta er algengasta ástæðan fyrir tannfyllingu

-Brot eða sprungur í tönn, stundum vegna áverka

-Slit í tönn

- Til að laga útlit tannar

-Til að skipta út eldri fyllingu

Ef skaði á tönn er umfangsmikill getur verið betra að gera krónu á tönnina til að fá upprunalegt form og virkni á tönnina.

Ef skaðinn nær inn að tauginni getur þurft að rótfylla tönnina áður en endanleg fylling er gerð.

Hvaða efni er í tannfyllingum?

Plastfyllingar

Það fyllingaefni sem er mest notað í dag er kallað composit eða plastfylling.  Það er plastblanda með örsmáum postulínskornum sem auka styrk efnisins.  Efnið fellur vel að náttúrulegum lit tannanna.  Plastfyllingar eru notaðar í allri almennri fyllingavinnu hvort sem er á framtanna eða jaxlasvæði.  Plastið binst vel við tannvefinn sem er mikill kostur  og gerir það að verkum að minna þarf að bora af tönninni til að fyllingin tolli.

Ókostir plastfyllinga eru að efnið slitnar og mislitast með tímanum, mjög mismikið eftir einstaklingum.  Hjá sumum duga fyllingar mjög lengi en styttra hjá öðrum.

Postulínsfyllingar

Ef skaði á tönn er umfangsmikill getur verið betra að hafa fyllinguna úr efni sem er slitsterkara en plastið.  Postulínsfyllingar eru úr mjög hörðu og slitsterku efni og mislitast síður en plastið.  Postulínsfyllingar ná oftast yfir stærri flöt á tönninni og klæða oft yfir einn eða fleiri tinda á jöxlum.  Þegar gera á postulínsfyllingu er tönnin boruð til og síðan tekið þrívíddarskann af henni.  Það er sent á tannsmíðastofu þar sem fyllingin er útbúin. Á meðan er sett bráðabirgðafylling.  Þegar postulínsfyllingin er tilbúin er hún mátuð á tannlæknastofunni og síðan límd í tönnina.  

Meðferðin er kostnaðarsöm og krefst fleiri heimsókna en hefbundin fylling en í sumum tilfellum borgar sig að gera slitsterkari og endingarbetri fyllingu sem auk þess hefur náttúrulegt og gott útlit.

Silfurfyllingar- amalgam

Þótt við gerum ekki lengur amalgamfyllingar eru mjög margir með slíkar fyllingar í munninum.  Þær hafa reynst mjög endingargóðar og í sumum tilfellum hafa fyllingar, settar i á unglingsaldri, enst allt lífið.

Gallarnir við amalgam eru þó nokkrir sem hafa leitt til þess að notkun þess er hætt.  Aðalástæðan er umhverfisvernd enda er efnið í amalgami um 50% kvikasilfur. Hluti þessa kvikasilfurs fer út í umhverfið þegar verið er að setja nýja fyllingu.    Amalgam er auk þess dökklitað og ekki náttúrulegt í útliti og því velur fólk frekar tannlitað fyllingarefni.  Oft er mælt með því að skipta út amalgamfyllingu vegna leka eða sprungumyndunar út frá fyllingunni og er þá sett tannlituð fylling eða króna í staðinn.

Hvernig fer tannfyllingarmeðferðin fram?

Þegar setja á fyllingu í skemmda tönn eða skipta út gamalli fyllingu þarf oftast að deyfa tönnina fyrst.  Oft er settur svo kallaður gúmmídúkur yfir tönnina til að einangra vinnusvæðið frá munninum og halda  munnvatni, tungu og kinnum frá.   Því næst er skemmd eða fylling fjarlægð og tannvefurinn pússaður til svo form hans sé ásættanlegt til að taka á móti nýrri fyllingu.  Stundum þarf að setja einhvers konar hring eða form á tönnina til að styðja við fyllingarefnið.  Tannvefurinn er hreinsaður með bláu geli sem ýrir yfirborðið, því næst er sett bindiefni sem er hert með bláu ljósi.  Plastefnið er sett í þunnum lögum og hert með ljósinu á milli.  Fyllingin er að endingu pússuð.  Þegar gúmmídúkurinn hefur verið fjarlægður er bitið prófað með bláum renningi á milli tannana og pússað til.  Þú átt ekki að finna fyrir fyllingunni í bitinu.

Við hverju má ég búast?

Í flestum tilvikum gengur meðferðin vel og þú finnur engin viðvarandi einkenni eftir fyllingarmeðferð. 

Þegar þú færð nýja fyllingu getur tönnin þó hugsanlega verið örlítið viðkvæmari á eftir.  Ef þú finnur fyrir tönninni í biti þegar deyfingin er farin og tönnin farin að jafna sig þarft þú að hafa samband við okkur.  Of há fylling getur leitt til viðkvæmni og jafnvel slæmra verkja.

Við hvetjum þig einnig til að hafa samband ef einhver viðvarandi óþægindi eru frá tönninni svo sem kul, seiðingur, snöggur ábitsverkur, matarþjöppun, grófleiki eða annað.  

Hvað kostar tannfylling?

Verð á tannfyllingu fer eftir stærð og umfangi fyllingarinnar, einnig efnisvali.  Dæmi um verð á fyllingu getur þú séð í verðlistanum okkar.  Deyfing og gúmmídúkur eru ekki innifalin í verði fyllingar. 

Sjúkratryggingar greiða að fullu kostnað við fyllingavinnu hjá börnum og stóran hluta kostnaðar hjá öldruðum og öryrkjum.

Ert  þú með gamlar fyllingar sem þarf að skipta út eða jafnvel skemmd í tönn?

Við hjá Tannlæknaþjónustunni höfum áhuga á tannheilsu þinni og viljum aðstoða þig við að halda tönnunum í góðu lagi.  Þú ert velkomin(n) í skoðun til okkar og við metum í sameiningu hverjar þínar þarfir eru.