Rótfylling

Rótfylling er meðferð þar sem sýkt eða skemmd tannkvika er fjarlægð og rótargöng fyllt með þéttri fyllingu. Meðferðin er yfirleitt sársaukalaus eftir að deyfing hefur verið lögð og tekur oft tvö til þrjú skipti. Eftir rótfyllingu þarf að ljúka meðferðinni með fyllingu eða krónu til að styrkja tannvefinn og verja. Batahorfur eru góðar, en ávallt er mikilvægt að viðhafa góða munnhirðu.

Illustration of a root canal operation.

Hvað er rótfylling?

Með rótfyllingu er átt við meðferð þar sem kvika eða taug tannar er fjarlægð og í rótargöngum er komið fyrir efni sem lokar þeim og þéttir þannig að bakteríur komist ekki að.

Hvað er tannkvika?

Kvikan er mjúkur vefur sem inniheldur taugar og æðar sem næra tönnina. Hún er staðsett í kvikuholi innst í tönninni og liggur í göngum niður í ræturnar, svo kölluð rótargöng. Tannkvikan er lífæð tannarinnar og tengir hana við umverfið með taugum og æðum.

Af hverju þarf að rótfylla tönn?

-Sýking. Ef kvikan sýkist getur hún ekki gert við sig sjálf. Algengasta ástæðan fyrir sýkingu eru djúpar skemmdir eða tannbrot. Bakteríur í munnvatninu komast inní kvikuna og valda sýkingunni. Ef ekkert er að gert nær sýkingin út í beinið sem umlykur tönnina og graftarkýli getur myndast.

-Verkir og viðvarandi viðkvæmni í tönn sem næst ekki að koma í veg fyrir á annan hátt

-Áverkar geta leitt til dreps í tönninni. Ef kvikan deyr eiga bakteríur greiðan aðgang að henni.

-Sprungur í tönn geta leitt til bakteríuleka inn í kvikuna og síðan sýkingar. Stundum er hægt að bjarga tönninni með rótfyllingu.

Er rótfylling sársaukafull?

Yfirleitt er meðferðin sársaukalaus eftir að deyft hefur verið. Stundum metur tannlæknir tönnina þannig að óþarf sé að deyfa, þ.e. ef kvikan er dauð. Bólga og verkir geta stundum haft áhrif á deyfinguna þannig að hún virki ekki alveg eins vel.

Hvernig er rótfylling framkvæmd?

Kvikan í rótargöngunum eru fjarlægð og rótargöngin formuð til. Bakteríudrepandi efni er síðan sett í rótargöngin þegar þau hafa verið hreinsuð. Yfirleitt þarf að koma aftur til að setja endanlegt rótfyllingarefni.

Hversu langan tíma tekur rótfylling?

Algengast er að sjúklingur þurfi að koma í tvö til þrjú skipti til meðferðar hjá tannlækni. Erfið tilfelli krefjast þó fleiri heimsókna. Meðferðin getur verið tímafrek, sérstaklega ef um margróta tennur er að ræða.

Hvað kostar rótfylling?

Það fer eftir meðferðinni; því hversu mikil vinna er að rótfylla viðkomandi tönn. Jaxlar eru dýrari en framtennur vegna þess að þeir eru með fleiri rótargöng sem erfiðara er að hreinsa. Tannlæknir getur í upphafi meðferðar gefið upp áætlaðan kostnað. Sjá verðskrá hér

Hve lengi endist rótfyllta tönnin?

Þótt rótfylltar tennur geti verið stökkar, þá geta þær enst eins og aðrar tennur sé tryggilega gert við þær, til dæmis með krónugerð. Það er mjög mikilvægt að setja endanlega fyllingu í tönnina fljótlega eftir að rótfyllingameðferð lýkur.

Hver er munurinn á rótfyllingu og venjulegri fyllingu í tönn?

Rótfylling er sett ofan í rótargöngin. Venjuleg fylling er sett í krónuhluta tannarinnar, og er oftast úr plasti.  Stundum þarf að smíða hettu sem fer alveg yfir tönnina og er  hún kölluð króna. Alltaf þarf að setja venjulega fyllingu eða krónu  á þær tennur sem hafa verið rótfylltar.

Dökknar tönnin eftir rótfyllingu? 

Áður fyrr dökknuðu tennur oft eftir rótfyllingu en með betri efnum og tækni gerist það sjaldnar. Gerist það, er stundum hægt að lýsa tönnina aftur innan frá. Einnig er mögulegt að bæta útlit dökkra tanna með fyllingum eða postulínskrónum.

Hverjar eru batahorfur eftir rótfyllingu?

Batahorfur eru venjulega um 80-90%. Þetta er svolítið mismunandi eftir tilfellum. Hverfi sýking ekki er stundum mögulegt að endurmeðhöndla tönnina eða gera rótarendaaðgerð á henni.

Hvernig er líðan eftir meðferð?

Það er ekki óalgengt að finna fyrir einhverjum eymslum í tönn fyrstu dagana eftir meðferð, sérstaklega ef tönnin var aum eða með verkjum fyrir. Algengast er þó að meðferð dragi úr einkennum eða þau hverfi alveg. Stundum þarf að taka væg verkjalyf í einn til fjóra daga eftir heimsókn. Ef bólga myndast eða mikill verkur er ráðlegt að hafa samband við viðkomandi tannlækni.

Hvernig er tilfinning í tönn sem hefur verið rótarfyllt?

Í flestum tilvikum er tilfinningin í rótfylltri tönn ekki frábrugðin þeirri í öðrum tönnum þó stundum geti væg óþægindi varað í svolítinn tíma. Ef verkur gerir vart við sig og líðan í tönninni versnar þá er eitthvað að. Hafðu samband við tannlækninn þinn ef svo er.

Er meðferð lokið strax eftir rótarfyllingu?

Nei, það er áríðandi að ganga endanlega frá tönninni með fyllingu eða krónu. Bráðabirgðafyllingin sem yfirleitt er sett í eftir rótfyllingu getur lekið og rótargöngin sýkst aftur. Einnig er mun meiri hætta á að tönnin brotni meðan hún er aðeins með bráðabirgðafyllingu.

Hef ég einhverja aðra kosti en að láta rótfylla tönnina?

Þú getur látið draga tönnina úr. Þá þarf oftast að setja brú, tannplanta eða part í staðinn. Slíkar aðgerðir eru oft síðri en rótarfylling og eru auk þess allmiklu dýrari.  Meta þarf hvert tilfelli fyrir sig.

Er að vænta einhverra sérstakra erfiðleika í meðferðinni?

Oft eru rótargöng bogin, það geta verið auka rótargangar, rótargöngin kölkuð eða erfiðleikum bundið að komast fyrir sýkingu. Í slíkum tilfellum þarf stundum að fara til rótfyllingarsérfræðings sem hefur smásjá sér til aðstoðar. Það tekst ekki alltaf að meðhöndla sýktar tennur og getur orðið nauðsynlegt að fjarlægja þær.

Hve lengi endist rótfylling?

Rótfylling á að geta dugað út ævina, ef  tönnin endursýkist ekki. Það verður að bursta og þrífa rótfylltar tennur eins vel og aðrar tennur. Krónuhluti og rótarhluti tannar getur skemmst þó að tönnin sé rótfyllt. Rótfylltar tennur eru veikbyggðari en aðrar tennur og því er æskilegt og oft nauðsynlegt að setja postulínskrónu yfir tönnina til að styrkja hana og vernda. Í vissum tilfellum nægir að setja endanlega fyllingu, t.d. úr plasti til að loka tönninni. Efni og aðstæður ráða því hvaða lokameðferð er valið í hverju tilfelli.

Viltu vita meira um rótfyllingar?

Ef þú hefur spurningar eða hugleiðingar um rótfyllingar eða ert með tannverk eða önnur einkenni þá tökum við vel á móti þér. Tannlæknir ráðleggur þér hvaða meðferð hentar í þínu tilviki.